TF-LÍF sótti sjúkling á bæ í Árnessýslu

Vegna ófærðar var talið öruggara að kalla til þyrluna.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst klukkan 20.27 beiðni frá Neyðarlínunni um aðstoð þyrlu vegna alvarlegra veikinda á bæ í Árnessýslu. Talið var öruggara að flytja sjúklinginn til Reykjavíkur með þyrlu vegna ófærðar á Hellisheiði. 

TF-LÍF fór í loftið klukkan 20.53 og lenti svo við bæinn klukkan 21.27. Þá var björgunarsveit komin þangað sem aðstoðaði við lendingu. Tuttugu mínútum síðar fór þyrlan aftur í loftið og lenti á Reykjavíkurflugvelli 22.12. 

Sjúklingurinn var þá fluttur með sjúkrabíl á Landspítalann á Hringbraut.