TF-SIF kölluð út vegna hugsanlegrar mengunar SV af Reykjanesi

-Athugun eftirlitsflugvélar Landhelgisgæslunnar leiddi í ljós að mengunin var minni en óttast var í fyrstu.

  • TF-SIF

30.4.2020 Kl: 12:47

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst rauð olíumengunarviðvörun með gervitunglamynd frá Siglingaöryggisstofnun Evrópu í gærmorgun. Samkvæmt myndinni var olíumengunin um 50 sjómílur suðvestur af Reykjanesi. Athugun Landhelgisgæslunnar leiddi í ljós að þrír togarar höfðu farið um svæðið á leið sinni til veiða á Reykjaneshrygg aðfaranótt miðvikudags. Eftirlitsflugvélin TF-SIF var þegar í stað kölluð út og Umhverfisstofnun gert viðvart. Áhöfn hennar myndaði svæðið og athugaði hversu umfangsmikil mengunin væri.

Við skoðun áhafnar flugvélarinnar kom í ljós að um mengunin var minni en óttast var í fyrstu en olíuslikja var þó sjáanleg. Áhöfnin á TF-SIF setti sig í samband við skipstjóra togaranna sem könnuðust ekki við að hafa misst olíu í sjóinn. Landhelgisgæslan gerði skipstjórunum ljóst að vel væri fylgst með lögsögunni úr lofti og á sjó. Þegar flogið var yfir mengunarstaðinn á bakaleiðinni kom í ljós að mengunin var ekki lengur sjáanleg.

Screenshot-2020-04-29-at-21.13.09Olíuslikjan sást úr lofti.Screenshot-2020-04-29-at-21.12.55Skipstjórar togaranna könnuðust ekki við að hafa misst olíu í sjóinn.