TF-SIF kom upp um smyglara

Flugvélin er í verkefnum í Miðjarðarhafi fyrir Frontex

Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, fór í nýliðinni viku til Miðjarðarhafsins en næstu vikur verður vélin við störf á svæðinu fyrir Landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu, Frontex. Einn megin tilgangur verkefnisins er að finna báta með flótta- og farandfólki svo hægt sé að koma því til aðstoðar og í öruggt skjól. 

TF-SIF fór í sína fyrstu eftirlitsferð á laugardag og dró þá strax til tíðinda. Áhöfn vélarinnar greindi með eftirlitsbúnaði vélarinnar hraðbát sem vakti eftirtekt. Vélin fylgdi bátnum eftir í nokkrar klukkustundir og á leiðinni gerði áhöfnin grískum yfirvöldum viðvart.

Gríska strandgæslan sigldi til móts við bátinn og stöðvaði hann. Í ljós kom að um borð voru 1,6 tonn af kannabisefnum. Mennirnir um borð sem grunaðir eru um smyglið voru handteknir. 

Frontex greindi frá málinu á Twitter síðdegis. 

Fyrr í dag tók TF-SIF þátt í leit að báti með um fimmtíu flóttamenn á austanverðu Miðjarðarhafi sem saknað hefur verið síðan um helgina. Eftirgrennslan flugvélarinnar bar ekki árangur.