Þór æfir með danska varðskipinu TRITON

 

Varðskipið Þór og danska varðskipið TRITON héldu sameiginlega æfingu í vikunni þar sem æfð voru viðbrögð við eldi um borð og meðferð slasaðra vegna þess. Landhelgisgæslan æfir mjög oft með dönsku varðskipunum og er þetta góða samstarf afar mikilvægt fyrir Landhelgisgæsluna.

Æfingin hófst með því að varðskipsmenn af Þór fóru um borð í TRITON með reykkafara og búnað og settur var á svið eldur í vélarrúmi TRITON. Fóru varðskipsmenn niður þrjár hæðir um neyðarútgang og björguðu „manni“ úr vélarrúminu. Sama æfing var endurtekin þrisvar sinnum fyrir þrjú reykköfunarteymi frá varðskipinu Þór. Gekk áhöfninni af Þór vel að fara um og athafna sig í þessu rými sem var þeim allsendis ókunnugt og fullt af reyk en einungis 11 mínútur tók frá því fyrstu reykkafarar fóru inn þangað til að „maðurinn“ var kominn út.

Að því loknu komu varðskipsmenn af TRITON um borð í varðskipið Þór og sama æfing var endurtekin. Gekk hún afar vel og stóðu TRITON menn sig með sóma. Að lokinni „björgun“ manna úr reykfylltu vélarrúminu var hlúð að hinum „slösuðu“ og þar með æfð meðferð við alvarlegum bruna, reykeitrun og áverkum.

Æfingin gekk mjög vel og var sérlega lærdómsrík fyrir alla aðila. Sem fyrr segir er æfingin liður í afar mikilvægu og öflugu samstarfi danska sjóhersins og Landhelgisgæslunnar. 

 
Danska varðskipið TRITON.
 
Varðskipsmenn á léttabát á leið yfir í danska varðskipið.
 
Að lokinni vel heppnaðri æfingu.