Þrekþjálfun í varðskipinu Tý

  • 2007-05-11-tyr-1421-a

Varðskipið Týr kom til hafnar í Reykjavík í nýliðinni viku eftir viðburðaríkan þriggja vikna túr. Týr var lengst af á loðnumiðunum fyrir austan land þar sem varðskipsmenn sinntu reglubundnu eftirliti með veiðum innlendra og erlendra skipa. Þá flutti varðskipið nokkra smala og hunda þeirra frá Seyðisfirði yfir í Loðmundarfjörð eins greint var frá hér á vef Landhelgisgæslunnar fyrir nokkru.

Til viðbótar við þessi verkefni gekkst áhöfnin á Tý undir stranga þrek- og styrktarþjálfun til undirbúnings fyrir þrekpróf sem starfsfólk Landhelgisgæslunnar þarf að gangast undir með reglulegu millibili.

Planki

Sverrir Harðarson, úr sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar, stýrði þessu þrek- og styrktarnámskeiði sem stóð yfir í fjóra daga. Sverrir annast framkvæmt þrekprófa Landhelgisgæslunnar en undir lok síðasta árs fékk hann sérstakan styrk úr sjóði til minningar um Vilhjálm Valsson stýrimann til að afla sér menntunar á þessu sviði. 

Farið var yfir tækni í fjölmörgum æfingum og teygjum og endaði námskeiðið á hópæfingu í þyrluskýlinu. Áhuginn leyndi sér ekki og voru menn hreinlega farnir keppa við hvorn annan undir lokin. 

Meiri planki

Í tengslum við námskeiðið komu svo fram ýmsar hugmyndir um hvernig bæta mætti aðstöðu til líkamsræktar um borð í varðskipinu. Varðskipsmenn sátu ekki við orðin tóm heldur tóku vélstjórar og smyrjarar strax til við að útbúa upphífingastangir og önnur tæki sem nota mætti við þjálfunina. 

Áður en Týr kom til hafnar tók áhöfnin þátt í æfingu með þyrlusveit Landhelgisgæslunnar. Varðskipsmenn og áhöfn þyrlunnar TF-SYN æfðu saman hífingar á Stakksfirði og gekk æfingin afar vel. Æfingar á borð við þessa eru nauðsynlegur liður í þjálfun bæði þyrluáhafna og skipverja á varðskipum og mikilvægt að efna til þeirra sem oftast.

Sigið í TýMynd: Kristinn Ómar Jóhannsson

Varðskipið Þór hélt úr höfn um leið og Týr sneri til baka til Reykjavíkur. Þór verður næstu vikur við löggæslu og eftirlit á Íslandsmiðum.