Þrjátíu ár frá sjósetningu Baldurs

,,Tilkoma Baldurs og þess búnaðar sem hann var upphaflega búinn með til sjómælinga og sjókortagerðar gjörbylti þessum vettvangi fyrir 30 árum síðan."

  • Baldur-vid-maelingar-i-Breidafirdi

14.4.2021 Kl: 12:45

Mogginn

Í dag eru þrjátíu ár síðan ár frá því að sjómælingabátnum Baldri var hleypt af stokkunum á Seyðisfirði. Báturinn hefur reynst Landhelgisgæslunni afar vel á þeim þrjátíu árum sem hann hefur verið nýttur til sjómælinga, eftirlits, löggæslu, æfinga og margvíslegra annarra verkefna enda fjölnota með meiru.

Baldur-bBaldur var smíðaður úr áli af Vélsmiðju Seyðisfjarðar sem eftirlits- og sjómælingabátur fyrir Landhelgisgæsluna og var hann sjósettur hinn 14. apríl 1991. Baldur kom svo til heimahafnar í Reykjavík 12. maí 1991. 


Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar og fyrrverandi skipstjóri á Baldri, segir að smíði Baldurs fyrir þrjátíu árum hafi markað tímamót fyrir Landhelgisgæsluna.

Baldur-Lhg_w0126,,Tilkoma Baldurs og þess búnaðar sem hann var upphaflega búinn með til sjómælinga og sjókortagerðar gjörbylti þessum vettvangi fyrir 30 árum síðan. Við það tækifæri reyndist unnt að hefja kerfisbundnar, tölvuvæddar mælingar umhverfis landið og afköst urðu miklu meiri en áður þekktist. Þar til að þessum tímamótum kom hafði þessi vinna farið að mestu eða að miklu leiti fram handvirkt en með sjálfvirkninni sem komið var á opnaðist fyrir nýja möguleika og víddir." Segir Ásgrímur og bendir á að á þessum tíma hafi tölvutæknin verið frumstæð og til að mynda hafi staðsetningarkerfi með gervitunglum ekki verið nýtanleg til nákvæmra staðsetninga.

Baldur-Lhg_w0011,,Það varð því að koma upp staðbundnum staðsetningarkerfum á þekktum mælistöðvum í landi og því óhægt um vik að færa verkefnið á milli svæða. Breyttist mikið eftir því sem gervihnattakerfin þróuðust og urðu nákvæmari og tölvurnar hraðvirkari og afkastameiri."

Baldur-Lhg_w0069

Skipstjóri og stýrimaður Baldurs ásamt bandarískum sjómælingamönnum á tíunda áratug síðustu aldar. 

Önnur stór breyting varð þegar að fjölgeislamæli var komið fyrir um borð í Baldri fyrir tæpum 20 árum. Breytingin umbylti hvernig staðið var og er að mælingum og uppsetningu þeirra. ,,Í sumum tilvikum tímasparnaður en í öðrum tilvikum getur nánast fullkomin þekjumæling hafbotnsins orðið til þess að sum margbrotin botnsvæðin tekur lengri tíma að fullmæla m.t.t. alþjóðlegra staðla sem lögbundið er að vinna eftir. Upplýsingarnar eru hinsvegar margfalt umfangsmeiri, betri og öruggari, þ.e.a.s ef rétt er staðið að öllum verkferlum og því nauðsynlegt að vanda vel til verka."

Baldur-Lhg_w0006Ásgrímur um borð í Baldri.

Baldur-vid-maelingar-vid-solaruppras_1618407427606Fyrir 30 árum síðan var stærstur hluti strandlengjunnar og hafsvæðið næst henni nánast ómælt og ókortlagt. Þar voru firðir og aðsiglingaleiðir að höfnum engin undantekning. Mikið hefur áunnist á þessum árum og flestar af helstu siglingaleiðum umhverfis landið hafa verið kortlagðar sjófarendunum til mikils öryggis og hægðarauka. 

,,Þeir sem starfa við kortlagningu heimshafanna er það vel kunnugt að sjófarendur sem og almenningur veltir því ekki mikið fyrir sér hversu mikil vinna og tími er á bak við sjókortið eða "sjókortamyndina" sem birtist þeim á skjá í rafræna kerfinu sem blasir við skipstjórnarmanninum og hann eða hún treystir á til að rata til hafnar eða sína leið. Fólk hugsar gjarnan sem svo að þessi botn og þetta dýpi hafi verið þarna um langa tíð og það hreinlega hljóti að hafa verið þekkt og til í korti um langa tíð. Það er ekki svo og víðs vegar um heiminn eru enn ókönnuð og ókortlögð hafsvæði" Segir Ásgrímur og bendir á að hér við land á enn eftir að kortleggja talsverðan hluta bæði næst landi og utar í efnahagslögsögunni.

P1010022

,,Gamall sjómaður vatt sér eitt sinn um borð í Baldur þar sem skipið lá við bryggju á ónefndum firði hér við land. Hafði séð til bátsins þar sem hann krossaði fjörðinn fram og til baka og langaði að vita hvað væri um að vera. Eftir að hafa fengið útskýringu á því þá fussaði hann og sagði að henni væri ekki endasleppt þeirri vitleysu sem sérfræðingunum fyrir sunnan dytti í hug að gera, dýptarmæla og kortleggja fjörðinn hans væri með því vitlausara sem hann hafði heyrt af.

Baldur-Lhg_w0102

 Bæði hann og forfeður hans allt aftur til landnámsmanna sem hefðu siglt inn á fjörðinn fyrir meira en 1000 árum síðan hefðu sko ekki þurft nein kort eða mælingar til að komast klakklaust leiðar sinnar um fjörðinn. Já, það má segja að sjómaðurinn aldni hafi haft eitthvað til síns máls en það er ljóst að í nútíma samfélagi eru góð og treystandi sjókort grundvöllurinn fyrir siglingaöryggi strandríkja og heimshafanna." Segir Ásgrímur að lokum.

Ahofn-Baldurs-2019-mynd-JPA_1618407475887Áhöfn Baldurs árið 2019.

Baldur er tveimur aðalvélum og skrúfum og er því mjög lipur í stjórntökum sem gerir bátinn sérlega hentugan í hin ýmsu verkefni. Baldur er sérstaklega útbúinn til sjómælinga fyrir sjókortagerð og um borð er m.a. fjölgeislamælir og fullkominn staðsetningabúnaður til að uppfylla alþjóðlegar kröfur um sjókortagerð. Um borð í Baldri er einnig léttbátur sem búinn er dýptarmæli til mælinga á grynningum og allra næst ströndinni. Að öllu jöfnu er fjögurra manna áhöfn á Baldri en vistarverur eru fyrir átta manns.

Baldur í Breiðafirði