Þrjátíu ár liðin síðan læknar urðu hluti af áhöfn björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar

Um þessar mundir er þeim tímamótum fagnað hjá Landhelgisgæslunni að 30 ár eru liðin síðan læknar urðu hluti af áhöfn björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar.

Í upphafi var gerður samningur við Borgarspítalann um þjónustu lækna um borð í þyrlunum. Í fyrstu var það hópur unglækna sem sinnti verkefninu og fékk heimild samkvæmt samningi til að fara af vöktum á sjúkrahúsinu til að sinna störfum um borð í þyrlunum. Samningar þessir hafa svo þróast í gegnum árin og nú er í gildi samningur milli velferðarráðuneytis og innanríkisráðuneytis um þjónustu lækna um borð í þyrlum Landhelgisgæslunnar.

Læknar eru ávallt hluti af áhöfn björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar og þurfa að undirgangast strangt þjálfunarferli innan Landhelgisgæslunnar áður en þeir geta hafið störf á þyrlunum. Þyrlur Landhelgisgæslunnar eru afar oft kallaðar til þegar alvarleg slys verða og á afskekktum stöðum þar sem áhöfn þyrlunnar er fyrsta hjálp á vettvangi. Störf lækna um borð í þyrlum Landhelgisgæslunnar skipta sköpum við björgunar- og sjúkraflutninga þar sem flugtími er oft langur við erfiðar aðstæður. Auk læknisins sem veitir slösuðum og sjúkum læknishjálp um borð eru spilmenn og sigmenn Landhelgisgæslunnar menntaðir sjúkraflutningamenn og veita læknunum aðstoð. Ljóst er að samsetning áhafna um borð í þyrlum Landhelgisgæslunnar hefur gert það að verkum að fjölda mannslífa hefur verið bjargað.

Af þessu tilefni komu saman í dag núverandi og fyrrverandi læknar úr áhöfnum björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar auk þeirra starfsmanna Landhelgisgæslunnar sem voru við störf á þyrlunum er læknar hófu þar störf. Tveir þeirra áhafnarmeðlima eru enn starfandi en það eru þeir Benóný Ásgrímsson flugstjóri og Sigurður Steinar Ketilsson skipherra. Þeir fögnuðu þessum tímamótum í dag ásamt forstjóra Landhelgisgæslunnar, Georg Kristni Lárussyni og núverandi og fyrrverandi samstarfsfélögum í hópi lækna og áhafnarmeðlima Landhelgisgæslunnar. Komu allir saman á þyrlupallinum við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi og var tekin mynd af hópnum fyrir framan þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-LIF.

 
Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF kemur inn til lendingar á þyrlupallinum við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi.
 
Upprunalegi hópurinn sem hóf störf sem þyrlulæknar ásamt upprunalegu þyrluáhöfninni og forstjóra Landhelgisgæslunnar.
 
Allur hópurinn samankominn fyrir framan þyrlu Landhelgisgæslunnar.