TF-LIF, TF-SIF og TF-EIR tóku þátt í útkallinu.
6.7.2019 Kl: 8:14
Skipsstjóri íslensks togskips, sem var að koma úr
Barentshafi, hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og óskaði eftir
aðstoð vegna manns sem hafði slasast á fæti. Skipið var þá statt um 450 sjómílur
NA af Langanesi og eftir samráð við þyrlulækni var ákveðið að skipið sigldi nær
landi. Laust eftir klukkan 16 í gær tók TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar, á
loft frá Reykjavíkurflugvelli en auk hennar var þyrlan Eir einnig kölluð út til
að vera til taks fyrir Líf, ef á þyrfti að halda.
Þá var TF-SIF, flugvél
Landhelgisgæslunnar, sömuleiðis kölluð út til að fylgja TF-LIF á vettvang en
áhöfnin á flugvélinni veitti áhöfn Lífar mikilvægar upplýsingar um veður- og skýjafar
á leiðinni. Öll tiltæk loftför Landhelgisgæslunnar tóku því þátt í útkallinu.
Áhöfnin á TF-EIR flaug til Egilsstaða þar sem hún var í viðbragðsstöðu fyrir
TF-LIF enda var skipið statt djúpt NA af landinu.
Áhöfnin á TF-LIF tók
eldsneyti á Þórshöfn áður en hún hélt að skipinu en þangað var þyrlan komin um
klukkan 20 í gærkvöld. Þá var togskipið um 118 sjómílur NA af Langanesi.
Skipverjinn var hífður um borð í þyrluna og á bakaleiðinni flaug TF-SIF á undan
þyrlunni og veitti upplýsingar um veðurfar.
Þyrlan lenti svo á
Reykjavíkurflugvelli laust eftir klukkan 23 en þaðan var skipverjinn fluttur með
sjúkrabíl á Landspítalann. Útkallið var gott dæmi um afar góða samvinnu áhafna
þyrlanna, flugvélarinnar, varðstjóra í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og
áhafnar togskipsins.
Þar með var annasömum degi áhafnarinnar á TF-LIF ekki lokið
því nokkru síðar, klukkan 1:02, tók þyrlan aftur á loft frá Reykjavík. Nú vegna
alvarlegra veikinda í Landmannahelli. Þangað var þyrlan komin um klukkustund
síðar og flutti sjúklinginn á Landspítalann í Fossvogi.
TF-LIF fór alls í þrjú útköll á fjórtán klukkustundum en í
hádeginu í gær voru tveir fluttur með þyrlunni á slysadeild Landspítalans eftir
umferðarslys á suðurlandi.
TF-SIF að loknu útkalli gærkvöldsins.
TF-LIF á flugi í gær. Myndir teknar úr TF-SIF.