Þröstur Sigtryggsson jarðsunginn

Þröstur Sigtryggsson, fyrrverandi skipherra hjá Landhelgisgæslu Íslands, var jarðsunginn í gær. Hann andaðist þann 9. desember síðastliðinn eftir stutta sjúkdómslegu, 88 ára að aldri. Samstarfsfélagar Þrastar hjá Landhelgisgæslunni voru líkmenn í útförinni sem gerð var frá Grafarvogskirkju.

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, minntist Þrastar í eftirfarandi grein sem birt var í Morgunblaðinu í gær: „Baráttan um yfirráðin yfir auðlindum hafsins er tvímælalaust einn þýðingarmesti kaflinn í sögu sjálfstæðisbaráttu okkar því án efnahagslegs sjálfstæðis er hið pólitíska sjálfstæði lítils virði. Leiðtogar þjóðarinnar höfðu kjark til þess á sínum tíma að berjast fyrir útfærslu landhelginnar og síðan fiskveiðilögsögunnar og Landhelgisgæslan hafði það ábyrgðarmikla hlutverk að framfylgja þeirri stefnu. Þar stóðu skipherrar Landhelgisgæslunnar í broddi fylkingar við aðstæður sem voru í senn viðkvæmar og hættulegar. Einn þessara manna sem við eigum svo mikið að þakka var Þröstur Sigtryggsson. 

Þröstur var fæddur að Núpi í Dýrafirði árið 1929. Hann hóf sjómennsku 1947 og fljótlega upp úr því hóf hann störf um borð í varðskipunum. Að afloknu námi í Stýrimannaskólanum, sem Þröstur lauk með hæstu einkunn, varð hann stýrimaður á varðskipunum 1953. Sjö árum síðar var Þröstur orðinn skipherra og starfaði sem sem slíkur nánast óslitið til ársins 1990 þegar hann settist helgan stein. 

Þröstur fékkst við ýmislegt á ferli sínum hjá Landhelgisgæslunni. Hann var á ýmsum varðskipum, í stjórnstöð og flugdeild. Á ofanverðum sjötta áratugnum var hann einn af fyrstu stýrimönnum Gæslunnar sem sinntu eftirliti með landhelginni úr Catalina-flugbátum við mjög frumstæðar aðstæður. Þegar Vestmannaeyjagosið stóð yfir annaðist Þröstur stjórn og skipulag búslóðaflutninga úr Heimaey fyrir hönd Landhelgisgæslunnar. 

Fyrst og fremst verður Þrastar þó minnst fyrir frammistöðu sína í þorskastríðum áttunda áratugarins. Þar þótti hann ganga fram af mikilli hugdirfsku en um leið fádæma yfirvegun og gætni. Það voru eiginleikar sem skiptu sköpum á þessum viðsjárverðu tímum þegar herskip sigldu um Íslandsmið með gínandi fallbyssukjafta og samskipti þjóðarinnar við önnur og stærri ríki voru á suðupunkti. 

Þrátt fyrir að tímarnir væru alvarlegir var Þröstur sjálfur jafnan léttur í lund. Sjálfsævisaga hans geymir margar skemmtilegar sögur enda var Þröstur frábær sagnamaður með kímnigáfu í ríkari mæli en flestum okkar er gefin. Á efri árunum hélt Þröstur ágætu sambandi við sinn gamla vinnustað, nú síðast í febrúar síðastliðnum þegar hann kom í mjög ánægjulega heimsókn í Skógarhlíðina með öldungaráði Landhelgisgæslunnar. 

Um leið og við hjá Landhelgisgæslunni vottum börnum Þrastar og öðrum ástvinum innilega samúð minnumst við sannkallaðs heiðursmanns. Hafi orðið „Landhelgisgæslumaður“ átt vel við einhvern þá er það Þröstur Sigtryggsson.“