Þúsundir gesta heimsækja varðskipið Þór á Fiskideginum mikla

Það var heldur betur líf og fjör um borð í varðskipinu Þór í gær en varðskipið er statt á Dalvík og var gestum Fiskidagsins mikla boðið um borð í varðskipið. Hvorki meira né minna en 4129 gestir heimsóttu skipið í gær og þar á meðal forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson sem mætti alveg óvænt ásamt eiginkonu sinni Elizu Reid til að skoða þetta glæsilega og öfluga varðskip okkar Íslendinga. Var þessi óvænta heimsókn þeirra mikill heiður fyrir áhöfn varðskipsins sem og allur sá fjöldi gesta sem kom og kynnti sér starfsemina í sannkallaðri rjómablíðu.

Jók það enn meira á gleði gesta er þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-SYN kíkti í heimsókn en þyrlan hafði verið í eftirlits- og löggæsluflugi. Lenti þyrlan á bryggjuendanum þar sem varðskipið Þór lá við bryggju og heilsaði áhöfnin upp á gesti varðskipsins. Þá gat nú þyrluáhöfnin ekki yfirgefið Dalvík nema kíkja fyrst í bæinn og gæða sér á fiskisúpu að hætti Dalvíkinga sem þeir kappar sögðu þá ljúffengustu sem þeir hefðu nokkurn tíma bragðað.

Dagurinn lukkaðist vel í alla staði og þakkar Landhelgisgæslan öllum þeim sem lögðu leið sína um borð fyrir komuna og óskar Dalvíkingum og gestum öllum til hamingju með glæsilega hátíð.

 
Spenntir gestir biðu í röð fyrir framan varðskipið en allt gekk eins og í sögu og allir komust um borð að lokum.
 
Gengið um borð í varðskipið Þór í þvílíkri rjómablíðu.
 
Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-SYN kíkti í heimsókn.
 
Gestir fylgdust með þyrlunni tylla sér á bryggjuendann.
 
Stýrimaðurinn Baldur Ragnars Guðjónsson (maðurinn í hvítu skyrtunni með svarta bindið) segir gestum frá lífinu um borð og starfseminni almennt.
 
Varðskipið Þór tignarlegt í veðurblíðunni á Dalvík.
 
Tónleikar að hefjast og varðskipið Þór í stúkusæti.