Þyrla Landhelgisgæslunnar, áhöfnin á Tý og björgunarsveitir kallaðar út vegna báts sem svaraði ekki kalli

Þyrla Landhelgisgæslunnar, áhöfnin á varðskipinu Tý og sjóbjörgunarsveitir á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út í hádeginu.

  • _S4I3241-2

13.5.2020 Kl: 13:01

Þyrla Landhelgisgæslunnar, áhöfnin á varðskipinu Tý og sjóbjörgunarsveitir á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út í hádeginu vegna báts sem datt úr sjálfvirkri tilkynningarskyldu og svaraði ekki kalli stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Þegar merki frá bátnum hætti að berast stjórnstöð Landhelgisgæslunnar var þegar stað hafist handa við að ná sambandi við bátinn auk skipa í grenndinni en án árangurs. 

Báturinn var staddur um þrjár sjómílur vestur af Stafnesi þegar síðast var vitað um hann. Einn var um borð. Þegar tilraunir til að komast í samband við bátinn báru engan árangur var ákveðið að kalla út þyrlu Landhelgisgæslunnar, áhöfnina á varðskipinu Tý auk sjóbjörgunarsveita frá Sandgerði. 

TF-EIR tók á loft frá Reykjavík klukkan 12:20 en skömmu síðar náðist samband við línubátinn Bergvík, sem var í grenndinni, í gegnum farsíma. Þá kom í ljós að báturinn sem saknað var hafði orðið rafmagnslaus og ekki reyndist unnt að koma vél hans í gang. Um það leyti sem línubáturinn Bergvík kom að náðist að koma vél bátsins í gang. Hann heldur nú til hafnar í fylgd Bergvíkur. Að auki siglir bátur frá björgunarsveitinni í Sandgerði á móti til að gæta fyllsta öryggis.

Landhelgisgæslan leggur ríka áherslu á að sjófarendur sinni hlutvörslu á rás 16 sem getur reynst lífsnauðsynleg í neyð.

Ljósmynd: Árni Sæberg.