Þyrla Landhelgisgæslunnar í tvö útköll það sem af er degi

TF-GNÁ, þyrla Landhelgisgæslunnar hefur farið í tvö útköll það sem af er degi. Um ellefuleytið í morgun barst beiðni um aðstoð þyrlu vegna barns sem hlotið hafði brunasár í Þjórsárdal. Þyrlan fór þegar af stað og var barnið komið undir læknishendur í Reykjavík rétt rúmlega tólf á hádegi.

Annað útkall kom svo rétt um klukkan þrjú í dag. Hafði göngukona fallið í Landmannalaugum og slasast. Þyrla Landhelgisgæslunnar var komin á vettvang um fjögurleytið og var konan flutt með þyrlunni til Reykjavíkur þar sem hún var flutt á sjúkrahús.