Þyrla Landhelgisgæslunnar og sjóbjörgunarsveitir kallaðar út vegna báts í vanda

Áður en þyrlan og björgunarsveitir komu á staðinn tókst að koma bátinum í tog sem var dreginn til hafnar á Dalvík.

  • TF-EIR9

1.7.2020 Kl: 13:01

Þyrla Landhelgisgæslunnar og sjóbjörgunarsveitir á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Eyjafirði voru kallaðar út á tólfta tímanum í dag vegna fimm tonna fiskibáts sem varð vélarvana vestur af Hrólfsskeri og rak hratt að bjargi.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar óskaði sömuleiðis eftir aðstoð báta í grenndinni sem brugðust hratt við. Þyrla Landhelgisgæslunnar var á flugi þegar útkallið barst og var í 20 mínútna fjarlægð. Áður en þyrlan og björgunarsveitir komu á staðinn tókst að koma bátinum í tog sem var dreginn til hafnar á Dalvík. Einn var um borð í bátnum og sakaði hann ekki.