Þyrla Landhelgisgæslunnar sækir slasaðan göngumann á Sólheimajökul

 

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst klukkan 13:55 beiðni frá lögreglunni í Vík um þyrlu vegna göngumanns sem fallið hafði töluverða hæð á Sólheimajökli og slasast.

Áhöfn á TF-LIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar undirbjó þegar brottför og fór í loftið klukkan 14:15 og var komin á slysstað rúmlega þrjú.

Bjuggu læknir og stýrimaður í áhöfn þyrlunnar um hinn slasaða og var hann fluttur í þyrluna. Gengu aðgerðir greiðlega en rúmum fimm mínútum eftir að þyrlan var komin á vettvang var hún lögð af stað til Reykjavíkur og er hún væntanleg um klukkan 15:45.