Þyrla Landhelgisgæslunnar sækir veikan skipverja af bresku rannsóknarskipi um 150 sjómílur frá landi

  • TF-LIF_8434_1200

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst um tíuleytið í morgun beiðni í gegnum Björgunarmiðstöðina í Bretlandi um þyrlu til að sækja veikan skipverja af bresku rannsóknarskipi. Er beiðnin barst var skipið statt um 280 sjómílur suðvestur af Reykjanesi.

Í samráði við skipstjóra skipsins og lækni var ákveðið að skipið myndi sigla áleiðis til lands og þyrla myndi sækja sjúklinginn þegar skipið ætti um 150 sjómílur eftir að landi. TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar fór í loftið um klukkan 21:00 í kvöld og er áætlað að hún verði komin að skipinu nú um klukkan 23:00. Mun þyrlan flytja skipverjann á sjúkrahús og er áætluð koma til Reykjavíkur um klukkan 00.40 í nótt.