Þyrlan kölluð út vegna báts í vanda á Bakkaflóa

Leki kom að fimm tonna fiskibát

  • Thyrluaefing-TF-EIR-VS-TYR-22-

2.10.2019 Kl: 16:50

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst beiðni um aðstoð klukkan 15:46 frá skipstjóra fimm tonna fiskibáts á Bakkaflóa eftir að leki kom að bátnum. Einn var um borð. Þyrla Landhelgisgæslunnar var þegar í stað kölluð út auk þess sem skip í grenndinni voru beðin um að halda á staðinn. Þá var björgunarskipið Sveinbjörn Sveinsson, á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar, frá Vopnafirði kallað út sem og sjóbjörgunarsveitir á svæðinu.

Klukkan 16:30 kom nálægur bátur að fiskibátnum og var það álit skipstjóranna að hægt væri að taka fiskibátinn í tog og draga inn til Bakkafjarðar. Lensidæla bátsins hefur undan meðan bátnum er ekki siglt undir eigin vélarafli. Björgunarskipið Sveinbjörn Sveinsson og harðbotna björgunarbátur frá Þórshöfn halda för sinni áfram að bátnum en þyrlu Landhelgisgæslunnar hefur verið snúið við.