Þyrlan sótti slasaðan mann í Þistilfirði

Maður lærbrotnaði á fjórhjóli nærri Þórshöfn og varð að senda þyrlu eftir honum.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst á tíunda tímanum í gærkvöld beiðni frá Neyðarlínu um aðstoð þyrlu vegna manns sem hafði slasast á fjórhjóli í Þistilfirði, skammt vestan Þórshafnar. Um klukkan tíu fór TF-LIF í loftið og var hún kominn á vettvang laust fyrir miðnætti. Maðurinn reyndist lærbrotinn og kaldur en viðbragðsaðilar á vettvangi voru búnir að hlúa að honum eins og kostur var. Vel gekk að koma manninum fyrir í þyrlunni og var svo flogið með hann til Akureyrar. Lenti TF-LIF á þyrlupallinum við sjúkrahúsið á Akureyri um klukkan hálfeitt. Þyrlan tók svo eldsneyti á Akureyrarflugvelli og hélt loks aftur til Reykjavíkur.

Þetta var ekki eina beiðnin um þyrluaðstoð sem kom inn á borð stjórnstöðvar LHG í gærkvöld því á tíunda tímanum hafði lögreglan á Hólmavík samband vegna tveggja manna sem farið að var að óttast um en þeir höfðu farið til fjalla fyrr um daginn að leita kinda. Önnur þyrluáhöfn var kölluð út til að leita að manninum en áður en þyrlan fór í loftið bárust þær góðu fréttir að mennirnir væru fundnir.

Til marks um annirnar í stjórnstöðinni í gærkvöld má nefna að á tímabilinu frá klukkan 21:00 til 21:35 fóru 55 símtöl í gegnum stöðina vegna þessara mála.