Þyrlan TF-LÍF sækir slasaða göngukonu eftir að neyðarboð barst gegnum rás 16

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst klukkan 20:12 neyðarkall í gegnum rás 16 vegna göngukonu sem hafði dottið í Bolungarvík á Ströndum en konan var þar með gönguhóp. 

Beiðnin kom sem fyrr segir í gegnum rás 16 sem er neyðar- og uppkallsrás skipa en ekkert síma- eða Tetrasamband er á staðnum. Hafði hópurinn verið með VHF talstöð með sér og gekk einn samferðamanna konunnar talsverða leið til að ná sambandi.

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF var kölluð út og er hún áætluð á vettvang rétt fyrir klukkan 22:00 og mun hún flytja konuna á sjúkrahús.