Þyrluáhöfnin í neðanjarðarhífingum

Sigmanni TF-SYN slakað niður í alldjúpa holu á Reykjanesskaga í gær.

Góð og markviss þjálfun er forsenda réttra viðbragða þegar mest ríður á. Því ætti ekki að koma neinum á óvart að áhafnir björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar verja miklum tíma til æfinga yfir sjó og landi og jafnvel ofan í jörðinni!

 Í gær hélt áhöfn þyrlunnar TF-SYN til æfinga á Reykjanesskaga. Fyrst voru teknar nokkrar hífingar á jafnsléttu, fjallshlíð og svo fjallstoppi. Þegar komið var að fjórðu hífingunni kom áhöfnin auga á athyglisverða holu í jörðinni norðvestanundir Húsafelli, sem er skammt austan við Grindavík. Eftir stutta athugun var ákveðið að senda sigmanninn niður í könnunarleiðangur. Var honum slakað niður í holuna, sem er alldjúp, og lenti hann mjúklega í snjóskafli í henni miðri.


Um tilurð þessarar holu er til skemmtileg saga. Seint á tíunda áratugnum mun jarðýtu hafa verið ekið um svæðið. Ýtustjórinn átti sér einskis ills von þegar hann fann allt í einu pompa undan sér. Hann setti allt í botn og þegar hann leit aftur sá hann jörðina fyrir aftan sig hrynja ofan í sortann. Til allrar hamingju komust bæði ýtustjórinn og ýtan óhult til byggða en holan er þarna enn.