Þyrlur Landhelgisgæslunnar í tvö sjúkraflug

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst rétt um hálfþrjú leytið í dag beiðni um þyrlu vegna konu sem slasast hafði í Landmannalaugum.

TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar fór í loftið stuttu seinna og var lent á vettvangi um 40 mínútum eftir að útkall barst. Höfðu björgunarsveitarmenn, lögregla og sjúkraflutningamenn, sem komnir voru á vettvang þá búið um konuna og gekk greiðlega að flytja hana um borð í þyrluna. Rétt um átta mínútum síðar var þyrlan komin í loftið og flaug hún til Reykjavíkur þar sem konunni var komið á sjúkrahús.

Rúmlega fimm í dag barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar svo aftur beiðni um aðstoð þyrlu vegna mótorhjólaslyss á Kjalvegi sunnan Blöndulóns. Hafði einn maður slasast og er TF-GNA, þyrla Landhelgisgæslunnar nú á leið á vettvang til að sækja manninn og flytja hann á sjúkrahús í Reykjavík.