Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar annaðist útkall vegna slyss um borð í fiskiskipi
Skipverji slasaðist á fæti.
25.10.2024 Kl: 10:46
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út laust fyrir klukkan sjö í gærkvöld vegna slyss sem varð um borð í fiskiskipi í utanverðum Húnaflóa. Þar hafði skipverji slasaðist á fæti og var óskað eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar til að flytja hann á Landspítalann.
Þegar TF-EIR, þyrla Landhelgisgæslunnar, kom á staðinn var tiltölulega hægur vindur en ölduhæð um 4-6 metrar og töluverð hreyfing á skipinu. Sigmaður þyrlunnar fór um borð í fiskiskipið og undirbjó þann slasaða fyrir hífingu, sem gekk vel.
Þyrlan lenti svo við Landspítalann í Fossvogi um klukkan 22 í gærkvöld. Í meðfylgjandi myndbandi má sjá hluta af sjónarhorni sigmannsins í umræddu útkalli.