Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og sjóbjörgunarsveitir kallaðar út vegna elds um borð í fiskiskipi

-Yfirvofandi hætta er liðin hjá

  • TF-EIR9

1.10.2020 Kl: 14:12

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst neyðarkall frá áhöfn fiskiskips úti fyrir Norðurlandi á öðrum tímanum í dag vegna elds um borð. Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var þegar í stað kölluð út. Að auki voru sjóbjörgunarsveitir á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Norðurlandi kallaðar út en þær koma til með að flytja slökkviliðsmenn að fiskiskipinu. Jafnframt voru bátar í grenndinni beðnir um að halda á staðinn. 

Fjórir eru í áhöfn skipsins og tókst þeim fljótt að ráða niðurlögum eldsins. Slökkvikerfi skipsins var virkjað og lokað niður í vélarrúm. Tveir fiskibátar eru komnir að skipinu og yfirvofandi hætta er liðin hjá. 

Þyrla Landhelgisgæslunnar tók á loft frá Reykjavík klukkan 13:40 en hefur verið afturkölluð. Gert er ráð fyrir að fiskiskipið, sem er nú vélarvana, verði dregið til hafnar af öðru fiskiskipi, Björgu, sem statt var á siglingu um 10 sjómílum frá.