Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar sótti slasaðan sjómann

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út um miðnætti vegna slyss um borð í grænlenskum togara

  • YD9A0975

20.12.2021 Kl: 09:54

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út um miðnætti vegna slyss um borð í grænlenskum togara sem staddur var um 160 sjómílur vestur af landinu. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fékk tilkynningu um að skipverji um borð í skipinu væri með áverka á hendi eftir að hafa klemmst og var áhöfnin á TF-GRO kölluð út. 

Skipið hélt nær landi og um klukkan tvö í nótt var TF-GRO, þyrla Landhelgisgæslunnar komin að skipinu og fóru hífingar fram á stefni skipsins. Sigmanni var slakað um borð í togarann og skömmu síðar var skipverjinn hífður um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Þyrlan lenti á Reykjavíkurflugvelli á fjórða tímanum í nótt þar sem sjúkrabíll beið og flutti hinn slasaða á Landspítalann.