Þyrlusveit og björgunarsveitir björguðu pilti úr sjálfheldu
Pilturinn var hífður um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar.
1.9.2023 Kl: 14:29
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Austurlandi björguðu pilti úr sjálfheldu á Kambfjalli inn af Fáskrúðsfirði í nótt. Pilturinn sat fastur á þverhníptri skoru í rúmlega 400 metra hæð.
Björgunarsveitarmenn fundu drenginn og komust að honum ofarlega í fjallinu. Vegna erfiðra aðstæðna var ákveðið að kalla þyrlu Landhelgisgæslunnar út vegna mikils brattlendis. Hópurinn færði sig neðar um einn hamar þar sem auðveldara var að komast að honum meðan beðið var þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Þyrlunni var mjakað hægt og rólega upp eftir fjallinu og hópurinn staðsettur. Tengilínu var komið niður til hópsins og sigmanninum slakað niður. Pilturinn var settur í björgunarbúnaðinn og hífður upp í þyrluna með sigmanni þyrlusveitarinnar.
Um borð í þyrlunni var hlúð að drengnum og hann fluttur á Fáskrúðsfjörð þar sem tekið var á móti honum.
Samvinna allra viðbragðsaðila á vettvangi gekk afar vel við þessar krefjandi aðstæður.
Ljósmyndir: Landsbjörg
Á þessari mynd sem tekin er með hitamyndavél þyrlunnar sést vel hve krefjandi aðstæður voru á vettvangi í nótt.
Þyrla Landhelgisgæslunnar á vettvangi.