Þyrlusveit og sjóbjörgunarsveitir kallaðar út vegna leka sem kom að strandveiðibát

Báturinn var dreginn til hafnar af björgunarskipinu Björgu.

  • Nota2_1600696453556
8.5.2023 Kl: 17:39


Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og sjóbjörgunarsveitir á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Snæfellsnesi voru kallaðar út laust fyrir klukkan tvö í dag vegna leka sem kominn var að strandveiðibáti sem staddur var um 10 sjómílur vestur af Öndverðarnesi. Einn var um borð í bátnum og tilkynnti hann stjórnstöð Landhelgisgæslunnar að lekinn væri töluverður og að hann væri kominn í björgunargalla.

Bátar í grenndinni voru beðnir um að halda á staðinn og komu þeir skipverjanum til aðstoðar. Áhöfnin á þyrlu Landhelgisgæslunnar var stödd á Reykjavíkurflugvelli þegar útkallið barst og var því snögg á staðinn. Þyrlusveitin hafði dælur meðferðis en ekki reyndist nauðsynlegt til að koma þeim um borð því búið var að komast fyrir lekann að mestu þegar þyrlan kom á vettvang.

Áhöfnin á björgunarskipinu Björgu tók bátinn í tog til hafnar í Ólafsvík.

IMG_7221Björgunarskipið Björg með bátinn í togi.