Þyrlusveitin var á ferð og flugi um verslunarmannahelgina

Þyrlusveitin sinnti fjórum útköllum.

  • Eir-vid-Drumbsstadi

3.8.2021 Kl: 11:50

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var á ferð og flugi um verslunarmannahelgina og sinnti fjölmörgum verkefnum, þar af fjórum útköllum.

Undanfarin ár hefur Landhelgisgæslan aðstoðað lögreglu við umferðareftirlit um verslunarmannahelgi og á því varð engin breyting í ár. Á föstudeginum var umferðareftirlitinu meðal annars sinnt í Norðurárdal, Holtavörðuheiði, Laugalandi, Skagafirði og Öxnadal þar sem hraði ökumanna var mældur af lögreglumanni frá Lögreglunni á Norðurlandi Eystra. Að umferðareftirliti loknu voru fjallahífingar æfðar við Hraundranga í Öxnadal í stórbrotnu umhverfi. Þyrlusveitin var til taks á Akureyri aðfaranótt laugardags og fór í fiskveiðieftirlit við Húnaflóa ásamt starfsmönnum Fiskistofu áður en þyrlan hélt aftur til Reykjavíkur.

Um hádegisbil á sunnudag óskaði lögreglan á Vestfjörðum eftir því að þyrla Landhelgisgæslunnar yrði kölluð út vegna slasaðs mótorhjólamanns við Gjögur. Áhöfn þyrlunnar var á Reykjavíkurflugvelli þegar útkallið barst og var því snögg að taka á loft. Maðurinn var fluttur á Landspítalann í Fossvogi.

TF-EIR-i-thoku-UlfarsarfellSíðdegis á sunnudag fór áhöfnin á TF-EIR í umferðareftirlit í samstarfi við lögregluna á Suðurlandi. Tveir lögregluþjónar voru sóttir á Hvolsvöll og haldið var til hraðamælinga á Mýrdalssandi. Þegar þyrlusveitin var í umferðareftirlitinu var óskað eftir aðstoð þyrlunnar vegna vegna konu sem slasaðist á göngu í Úlfarsárfelli. Áhöfnin á TF-EIR fór því beint á staðinn. Aðstæður á vettvangi voru afar krefjandi. Konan var í miklum bratta og erfitt að koma henni landleiðina niður. Að auki gerði mikil þoka björgunarfólki erfitt fyrir. Vegna þokunnar hélt TF-EIR út fyrir Gróttu, inn fyrir Geldinganes og þaðan upp að Úlfarsfelli. Þar fylgdi björgunarsveitarmaður þyrlunni á staðinn og sigmaður seig niður til konunnar sem var svo hífð um borð í þyrluna. Samstarf allra viðbragðsaðila á staðnum var til sannkallaðrar fyrirmyndar. Flogið var með konuna á Reykjavíkurflugvöll þar sem sjúkrabíll beið eftir henni og flutti hana á sjúkrahús.

Í gær, mánudag, hélt samstarf lögreglunnar á Suðurlandi og Landhelgisgæslunnar áfram. Á fjórða tímanum var óskað eftir því að leitað yrði að göngumanni við Langasjó sem ekkert hafði spurst til í um sólarhring.  Þyrlusveitin leitaði í kringum Langasjó en án árangurs. Maðurinn fannst í Reykjavík síðar um kvöldið.

Eir-vid-DrumbsstadiLaust fyrir sjö í gærkvöldi var óskað eftir þyrlu að Drumboddsstöðum þar sem rúta fór á hliðina. Um fimmtíu voru um borð í rútunni. Þrír voru fluttir á sjúkrahús í Reykjavík. 

Í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar var einnig mikill erill vegna bilaðra báta og annarra verkefna. Það er því alveg óhætt að segja að helgin hafi verið annasöm hjá varðstjórum í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og þyrlusveitinni.

TF-EIR-i-UlfarsarfelliBjörgunarsveitarmaður gekk á undan þyrlunni og fylgdi henni á staðinn. Slökkviliðsmenn og björgunarsveitarfólk hugaði að konunni.