Til hamingju með daginn sjómenn!
Til hamingju með daginn sjómenn!
Í dag var sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur um land allt. Sem fyrr tók Landhelgisgæslan þátt í hátíðarhöldunum með ýmsum hætti. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar tóku þátt í athöfn sem fram fór í morgun við Minningaröldur sjómannadagsins við Fossvogskapellu í Fossvogskirkjugarði. Stóðu þeir meðal annars heiðursvörð og lögðu blómsveig að minnismerkinu. Sr. Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur flutti ritningarorð og bæn. Viðstaddir voru meðal annars forstjóri og starfsmenn Landhelgisgæslunnar, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytisins, fulltrúar Sjómannadagsráðs og Slysavarnafélagsins Landsbjargar auk annarra sem koma að sjóbjörgunarmálum hér á landi og fleiri mætra gesta.
Þá gengu starfsmenn Landhelgisgæslunnar í fylkingu ásamt forseta Íslands, ráðuneytisstjóra innanríkisráðuneytisins, fulltrúum Sjómannadagsráðs, Slysavarnafélagsins Landsbjargar og fleiri gestum, til Sjómannamessu í Dómkirkjunni. Biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir predikaði og Sr. Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur þjónaði fyrir altari. Dómkirkjukórinn söng, organisti var Kári Þormar og einsöngvari Sigrún Hjálmtýsdóttir. Ritningarorðin lásu Jóhann Gunnar Arnarsson bryti og Marvin Ingólfsson stýrimaður. Fánaberar voru þeir Jóhann Örn Sigurjónsson háseti, Guðmundur Birkir Agnarsson stýrimaður og Einar Hansen vélstjóri.
Líkt og undanfarin ár lásu starfsmenn Landhelgisgæslunnar úr ritningunni í messu á Hrafnistu í Reykjavík. Þá var áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar á ferðinni og kom við í Grindavík, Hafnarfirði og Reykjavík. Varðskipið Týr var á Ólafsfirði og tók þar þátt í hátíðarhöldum með skemmtisiglingu fyrir bæjarbúa og gesti. Þá sótti áhöfnin á Tý sjómannamessu á Ólafsfirði.
Landhelgisgæslan óskar sjómönnum og landsmönnum öllum til hamingju með daginn.
Heiðursvörður að gera sig tilbúinn í athöfninni við Minningaröldurnar við Fossvogskapellu. |
Starfsmenn Landhelgisgæslunnar, þau Harpa Karlsdóttir og Jónas Karl Þorvaldsson lögðu blómsveig að minnismerkinu og dómkirkjuprestur flutti ritningarorð. |
Starfsmenn Landhelgisgæslunnar að lokinni athöfn við Fossvogskapellu. |
Áhöfnin á varðskipinu Tý sótti sjómannamessu á Ólafsfirði. |