Tilkynningar til sjófarenda komnar út
Eitt af lögbundnum hlutverkum Landhelgisgæslunnar eru sjómælingar (dýptarmælingar) og sjókortagerð fyrir íslenskt hafsvæði ásamt útgáfu annarra sjóferðagagna og eru þessi verkefni í höndum sjómælinga- og siglingaöryggisdeildar stofnunarinnar.
11.12.2024 Kl: 10:19
Eitt af lögbundnum hlutverkum Landhelgisgæslunnar eru sjómælingar (dýptarmælingar) og sjókortagerð fyrir íslenskt hafsvæði ásamt útgáfu annarra sjóferðagagna og eru þessi verkefni í höndum sjómælinga- og siglingaöryggisdeildar stofnunarinnar.
Sjókort hafa lögformlegt gildi og skulu þau ávallt innihalda nýjustu upplýsingar er varða siglingaöryggi. Verði breytingar á t.d. vitum, sjómerkjum, hafnarmannvirkjum, dýpi o.s.frv. þarf að uppfæra sjókortin í samræmi við það svo þau haldi sínu lögformlega gildi. Sé um meiriháttar breytingar að ræða eru gefnar út nýjar útgáfur sjókorta en ef breytingar eru minniháttar eða tímabundnar, t.d. ef sjómerki eins dufl er óvirkt eða framkvæmdavinna í gangi innan hafna, þá eru sjófarendur upplýstir með svokölluðum Tilkynningum til sjófarenda, og eiga skipstjórnarmenn þá að uppfæra sjókort sín í samræmi við þær upplýsingar sem tilkynnt er um.
Landhelgisgæslan gefur Tilkynningar til sjófarenda að jafnaði út einu sinni í mánuði, en oftar ef þurfa þykir. Tilkynningarnar eru bæði á íslensku og ensku og eru sendar á skráða viðtakendur auk þess sem þær eru birtar á vefsíðu LHG.
Skip með viðurkennt rafrænt sjókorta- og upplýsingakerfi (ECDIS), eru áskrifendur að reglulegri uppfærslu sjókorta og fá þessar tilkynningar sendar til sín frá þjónustuaðilum, þ.e.a.s. ef breytingar eiga við þau kort sem í notkun eru um borð. Í skipum sem ekki eru búin þessum viðurkennda ECDIS búnaði þarf hins vegar að hafa sjókort á pappír og þau kort þurfa skipstjórnarmenn að uppfæra handvirkt.
12. útgáfa þessa árs af Tilkynningum til sjófarenda kom út í lok nóvember og inniheldur hún tilkynningar nr. 70-79 á árinu 2024.
Tilkynningar til sjófarenda og nánari upplýsingar má finna á heimasíðu LHG: Tilkynningar til sjófarenda | Landhelgisgæsla Íslands
Þeir sem vilja gerast áskrifendur að Tilkynningum til sjófarenda er bent á að senda tölvupóst með viðeigandi upplýsingum til sjómælinga- og siglingaöryggisdeildar LHG á netfangið sjokort@lhg.is.