Tilkynnt um mögulegt neyðarblys norður af Rifi
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst um hálfníu í morgun tilkynning frá bæði Rifi og Hellissandi þess efnis að mögulega hefði sést neyðarblys á lofti norður af Rifi. Þá þegar óskaði stjórnstöð Landhelgisgæslunnar eftir því við nærliggjandi skip og báta að þeir hæfu eftirgrennslan á svæðinu. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF var einnig send á vettvang og jafnframt óskað eftir því að björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar frá Rifi og Ólafsvík færu til leitar.
Sem stendur hafa engar upplýsingar borist um að einhvers sé saknað og ekki verið staðfest að um neyðarblys hafi verið að ræða. Meðal annars hefur verið hafin könnun á því hvort mögulega hafi getað verið um stjörnuhrap að ræða. Eftir sem áður mun Landhelgisgæslan leita af sér allan grun með aðstoð nærliggjandi báta og Slysavarnafélagsins Landsbjargar.