Töluverður viðbúnaður vegna frístundabáts sem ekki náðist samband við
Samband náðist loks við bátinn á sjötta tímanum og var viðbragð þyrlusveitar og björgunarsveita afturkallað
25.4.2022 Kl: 17:59
Töluverður viðbúnaður var hjá Landhelgisgæslu og björgunarsveitum á norðanverðum Vestfjörðum síðdegis í dag vegna frístundaveiðibáts með sex innanborðs sem ekki náðist samband við. Samband rofnaði við bátinn á fjórða tímanum þegar hann var í mynni Önundarfjarðar og hófu varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar þegar eftirgrennslan sem ekki bar árangur.
Þá var áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar kölluð út sem og sjóbjörgunarsveitir á norðanverðum Vestfjörðum. Að auki voru skip og bátar í grenndinni beðin um að halda á staðinn og svipast um eftir bátnum.
Klukkan 17:45 náðist loks samband við bátinn þegar hann var á siglingu inn Öndunarfjörð og var þá viðbragð þyrlusveitar og björgunarsveitar afturkallað.