Þyrla verður á svæðinu að minnsta kosti þar til á morgun
Þyrlur Landhelgisgæslunnar verða á flóðasvæðunum suðaustanlands í dag og aðstoða þar lögreglu og aðra viðbragðsaðila, íbúa og ferðamenn. Þyrlan TF-GNA er nú komin austur með nýja áhöfn og verður hún TF-LIF til halds og trausts. Búist er við að TF-LIF, sem var á Höfn í Hornafirði í nótt, komi til Reykjavíkur síðdegis en TF-GNA verður áfram svæðinu að minnsta kosti fram á morgundaginn en þá verður ákvörðun um framhaldið tekin í samráði við lögreglu og almannavarnir.
Áin Kolgríma ber nafn með rentu um þessar mundir. Mynd: Teitur Gunnarsson/Landhelgisgæslan
Áhöfnin á TF-LIF sinnti margvíslegum verkefnum á svæðinu í gær en þyrlan flaug austur um morguninn. Með í för voru fulltrúar lögreglu og sérfræðingar Vegagerðarinnar en verkefni þeirra síðarnefndu var að meta ástand vegamannvirkja vegna álagsins sem vatnavextirnir hafa haft í för með sér.
Brúin yfir Steinavötn er orðin mjög ótraust og gólf hennar tekið að síga. Mynd: Hreggviður Símonarson/Landhelgisgæslan
Óhætt er að segja að verkefnin hafi verið bæði mörg og margvísleg. Á Kirkjubæjarklaustri var ljósmóðir tekin um borð sem átti að fara til Hornafjarðar. Komið var við á nokkrum bæjum með vistir og lyf, lögreglumenn fluttir að Steinavötnum til að leysa félaga sína af og ýtumaður fékk far í ýtuna sína. Þegar aðgerðunum lauk um kvöldið hafði 121 einstaklingur verið fluttur til og frá hinum ýmsu stöðum innan þess svæðis sem lokað er af milli Steinavatna í vestri og Hólabrekku í austri og naut áhöfnin við það aðstoðar björgunarsveita og lögreglu.
Stund á milli stríða hjá Sigurði Ásgeirssyni flugstjóra. Mynd: Teitur Gunnarsson/Landhelgisgæslan