Tveimur bjargað af sökkvandi báti
Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GNA, var kölluð út ásamt björgunarsveitum.
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst á níunda tímanum í kvöld neyðarkall frá bát í vanda í Skagafirði. Eftir nánari eftirgrennslan kom í ljós að báturinn hafði farið á hliðina. Tveir voru um borð í bátnum. TF-GNÁ, þyrla Landhelgisgæslunnar, var þegar í stað kölluð út sem og björgunarsveitir. Farþegabáturinn Súlan var einnig sendur á staðinn frá Hofsósi ásamt björgunarsveitarmönnum. Þyrlan tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli klukkan 21:09 en skömmu áður barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar upplýsingar um að mennirnir væru komnir í flotgalla. Þeim var svo bjargað um borð í björgunarbát heilum á húfi um þremur korterum eftir að neyðarkallið barst og var aðstoð þyrlunnar þá afturkölluð.