Tvö þyrluútköll í dag
TF-SYN og TF-GNA sinntu útköllum samtímis
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar
hefur það sem af er degi farið í tvö útköll. Á öðrum tímanum í dag barst
stjórnstöð Landhelgisgæslunnar boð frá neyðarsendi innst í botni Leirufjarðar.
TF-GNA, þyrla Landhelgisgæslunnar, var þegar í stað kölluð út og tók á loft frá
Reykjavík klukkan 13:40. Björgunarsveitir á Vestfjörðum voru einnig kallaðar út
sem og Gunnar Friðriksson, björgunarskip á vegum Slysavarnafélagsins
Landsbjargar. TF-GNA var komin í Leirufjörð eftir um klukkustundar flug frá
Reykjavík og áhöfn þyrlunnar hófst þegar handa við að finna neyðarsendinn sem
sagður var tilheyra göngumanni. Eftir stutta leit kom áhöfn þyrlunnar auga á
manninn. Hann var tekinn um borð í þyrluna og flogið með hann á Ísafjörð. Hann
var kaldur en í góðu ástandi að öðru leyti.
Fyrr í dag var TF-SYN, þyrla Landhelgisgæslunnar, kölluð út vegna banaslyss í hlíðum Kirkjufells. Áhöfn þyrlunnar flaug vestur ásamt fimm sérhæfðum fjallabjörgunarmönnum. Lögreglan á Vesturlandi rannsakar tildrög slyssins.
Þyrlan Gná í dag.
Elvar Steinn Þorvaldsson gerir sig kláran fyrir útkallið í dag.