Tvö útköll og flogið með Covid-19 sýni

Áhafnir Landhelgisgæslunnar höfðu í nógu að snúast um helgina, bæði við æfingar og útköll.

  • IMG_0953

30.3.2020 Kl: 15:30

Áhafnir Landhelgisgæslunnar höfðu í nógu að snúast um helgina, bæði við æfingar og útköll. Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar fór í tvö útköll sem bæði voru vegna vélsleðaslysa. 

Áhöfnin á TF-EIR, þyrlu Landhelgisgæslunnar, æfði á Suðurlandi um helgina. Meðal annars var lent í Hrauneyjum, æft í Jökulgili og við Hrafntinnusker. Meðan æfingunni stóð var óskað eftir því að Landhelgisgæslan færi til Vestmannaeyja þar sem flytja þurfti sýni vegna Covid-19 á Landspítalann til greiningar. TF-EIR fór rakleiðis til Eyja og sótti sýnið.

Á bakaleiðinni, þegar TF-EIR var við Þorlákshafnarveg, barst tilkynning um vélsleðaslys við Skíðaskálann í Hveradölum. Áhöfnin brást skjótt við og TF-EIR var lent á vettvangi um tveimur mínútum síðar. Hinn slasaði var fluttur á Landspítalann í Fossvogi.

Á sunnudag, var svo aftur óskað eftir aðstoð þyrlusveitar vegna vélsleðaslyss, nú við Veiðivötn. Tveir voru fluttir með TF-GRO, þyrlu Landhelgisgæslunnar, á Landspítalann til aðhlynningar.

TF-SIF, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, var sömuleiðis á flugi um helgina. Áhöfn hennar æfir reglulega ásamt því að sinna eftirlitsstörfum. Vélin flaug frá Bjargtöngum að Kötlutanga þar sem undanfarið hafa borist tilkynningar um olíublauta fugla á svæðinu. Engin mengun var sjáanleg en stefnt er að því að fara í annað slíkt flug á næstunni. Þá hafa þyrlur Landhelgisgæslunnar kannað staðbundin svæði vegna þessara tilkynninga en engin orsök hefur fundist.

Í fluginu lenti TF-SIF tvívegis í Vestmannaeyjum. Meðfylgjandi myndband sýnir aðflugið og lendinguna í fallegu veðri í Eyjum á laugardag.

Þá eru bæði varðskip Landhelgisgæslunnar, Þór og Týr, við eftirlit á hafinu. Týr er á suðvesturhorninu og Þór á Vestfjörðum. Áhöfnin á Tý æfði með áhöfn hafnsögubátsins Magna á fimmtudag. Á laugardag fann áhöfn skipsins öldumælisdufl sem losnaði út af Garðskaga í febrúar. Áhöfnin notaði gamaldags þríhyrnings miðunarleit og fann duflið loksins eftir nokkra leit. Í kjölfarið var nýtt Garðskagadufl sett á flot.

Áhöfnin á Þór nýtti tímann við að huga vel að fallbyssu skipsins en stefnt er að því að halda fallbyssuæfingu á næstu dögum, utan skipaleiða og veiðisvæða.

Hér má sjá nokkrar svipmyndir frá verkefnum helgarinnar.

TF-SIF lendir í Vestmannaeyjum

IMG_0953TF-EIR á flugi í nágrenni Hrafntinnuskers um helgina.

IMG_0982Náttúrufegurð við Jökulgil blasti við áhöfninni á TF-EIR á æfingunni.

Thorben-LundÁhöfnin á hafnsögubátnum Magna æfir með áhöfn Týs í síðustu viku.AEft-med-MagnaÆft með Magna. Mynd: Guðmundur St. Valdimarsson.90518768_796208927555140_488056538506723328_nMagni. Mynd: Garðar Rafn Nellett.
TF-SIFTF-SIF er töluvert á flugi þessa dagana.

OldumaelisduflÁhöfnin notaði gamaldags þríhyrnings miðunarleit og fann Garðskagaduflið loks á laugardag eftir nokkra leit.