Týr kominn til Reykjavíkur eftir síðasta túrinn
Týr lagðist að bryggju við Faxagarð í Reykjavík klukkan 9:00 í morgun.
15.11.2021 Kl: 11:24
Varðskipið Týr kom úr sinni síðustu eftirlitsferð fyrir Landhelgisgæslu Íslands í morgun þegar skipið lagðist að bryggju við Faxagarð í Reykjavík. Týr hefur leikið afar stórt hlutverk í sögu Landhelgisgæslunnar undanfarna áratugi.
Varðskipið Freyja hefur því formlega tekið við keflinu af Tý og fer í sína fyrstu eftirlitsferð í byrjun næstu viku.
Týr kom í fyrsta sinn til Reykjavíkur 24. mars 1975 og lagðist að Ingólfsgarði. Skipið var þá fullkomnasta skip Íslands og jafnframt það dýrasta en það kostaði um einn milljarð króna.Varðskipið fór sína fyrstu ferð til björgunar- og landhelgisgæslustarfa frá Reykjavík þann 29. mars 1975, undir stjórn Guðmundar Kjærnested , skipherra, og það kom í hlut Eiríks Bragasonar, skipherra, að stýra skipinu í lokaferðinni.
Varðskipið varð fyrir allmiklu tjóni á bol í fiskveiðideilunni við Breta árið 1976. Skipið sigldi til skipasmíðastöðvar eftir að þorskastríðinu lauk og gert var við skipið. Töluverðar breytingar voru gerðar á varðskipinu í Póllandi 1997. Sett var radarkúla á turn skipsins, þyrlupallur lengdur um 5 m og byggt yfir neðra þilfar. Smíðaðir voru stigar utan á sitt hvora síðuna. 30 tonna kjölur var settur undir skipið.
Meðfylgjandi myndir sýna áhöfn skipsins í þessari síðustu eftirlitsferð auk mynda af áhöfn skipsins árið 1975.
Síðasta áhöfn skipsins:
Efri röð frá vinstri: Fannar Freyr Sveinsson smyrjari, Marteinn E. Þórdísarson háseti, Særún Erla Baldursdóttir háseti, Björgvin Freyr Njálsson viðvaningur, Jóhannes Friðrik Ægisson bátsmaður, Róbert Elí Carlssen háseti, Valur Heiðar Einarsson háseti, Sæþór Berg Sturluson háseti, Baldur Örn Árnason háseti, Hinrik Hauksson smyrjari
Neðri röð frá vinstri: Hjörtur Friðberg Jónsson 3.stýrimaður, Elvar Már Sigurðsson 2.stýrimaður, Anton Örn Rúnarsson yfirstýrimaður, Eiríkur Bragason skipherra, Gunnar Rúnar Pálsson yfirvélstjóri, Tinna Magnúsdóttir 1.vélstjóri, Heiður Berglind Þorsteinsdóttir 2.vélstjóri, Egill Logi Hilmarsson bryti.
Einnig var Einar Ingi Reynisson yfirstýrimaður í ferðinni en hann er ekki á mynd.
Síðasti skipsfundurinn
Á myndinni eru: Eiríkur Bragason skipherra, Elvar Már Sigurðsson 3.stýrimaður, Jóhannes Friðrik Ægisson bátsmaður, Anton Örn Rúnarsson 2.stýrimaður, Tinna Magnúsdóttir 1.vélstjóri, Heiður Berglind Þorsteinsdóttir 2.vélstjóri, Gunnar Rúnar Pálsson yfirvélastjóri, Egill Logi Hilmarsson bryti og Einar Ingi Reynisson yfirstýrimaður.
Týr og Freyja við Faxagarð.Guðmundur Kjærnested og hluti af áhöfn hans árið 1975.Týr þann 21. apríl 1975.Týr í þorskastríðinu árið 1976.