Varðskipið Týr lagðist að bryggju í Reykjavík í morgun eftir rúmlega tveggja vikna úthald.
12.8.2020 Kl: 14:44
Varðskipið Týr lagðist að bryggju í Reykjavík í morgun eftir rúmlega tveggja vikna úthald. Ferðin hófst á Seyðisfirði en alls sigldi skipið rúmar 1500 sjómílur. Áhöfnin á Tý sinnti eftirliti í Síldarsmugunni auk hefðbundinna löggæslustarfa innan íslensku efnahagslögsögunnar.
Farið var í eftirlitsferðir um borð í sex íslensk skip innan og utan lögsögunnar auk þess sem áhöfnin þurfti að hafa afskipti af jafnmörgum skipum vegna ýmiskonar mála. Þar á meðal þurfti að vísa tveimur í land þar sem bátar þeirra voru komnir langt yfir leyfilega útiveru.
Um borð í Tý voru tveir kafarar að þessu sinni. Á bryggjunni á Siglufirði var tækifærið nýtt og köfunaræfing haldin.
Þá voru viðbrögð viðeldsvoða æfð. Öflugri háþrýstidælu með slökkvibyssu var komið fyrir í Loka, léttbát varðskipsins, auk annars búnaðar sem notaður var til slökkvistarfa. Samkvæmt áhöfninni bar báturinn hátt í eitt tonn með búnað og mannskap og gekk á 25 hnútum þrátt fyrir þyngslin. Þá fóru fjölmargar aðrar æfingar fram eins og venja er í hverri ferð.
Myndir: Guðmundur St. Valdimarsson.
Tonn af mannskap og búnaði um borð í Loka.
Kafað á Siglufirði.
Eftirlit á Íslandsmiðum.
Æft á Siglufirði.
Eftirlitsferð.
Týr siglir út Seyðisfjörð. Týr siglir út Seyðisfjörð í upphafi ferðar.