Upprifjun á umfjöllun ÍSOR frá 2020

Neðansjávarhraun og gígar við Grindavík.

  • 399653017_915057000413446_601372464890411981_n

16.11.2023 Kl: 12:05

Í ljósi atburðanna við Grindavík undanfarna daga og vikur er ástæða til að rifja upp umfjöllun ÍSOR frá því í upphafi umbrotahrinunnar í febrúar 2020. Goshrinan, sem nefnd hefur verið Reykjaneseldar, gekk yfir á árabilinu 1210-1240, það er fyrir um 800 árum. Þá urðu neðansjávargos úti fyrir Reykjanesi og hraun runnu á landi bæði á Reykjanesi og við Svartsengi. Eitt þessara hrauna var Eldvarpahraun vestan Grindavíkur. Gígaröðin sem þá gaus, Eldvörpin sjálf, er yfir 8 km löng og nær frá Svartsengi og alveg suður að ströndinni við Staðarberg og þar rann hraun í sjó.

Á fjölgeisladýptarmælingum, sem Landhelgisgæsla Íslands/Icelandic Coast Guard hefur aflað og látið ÍSOR í té til frekari úrvinnslu, sést að hraunið hefur ekki numið staðar við ströndina heldur hefur það runnið langa leið neðansjávar og myndar þar fallegar tungur úr úfnu hrauni. Lengst nær það um 2,7 km út frá strönd og er þar komið niður á um 90 m dýpi. Hugsanlegt er að gossprungan sjálf teygi sig líka út fyrir ströndina og að þarna hafi gosið í sjó á sama tíma. Erfitt er þó að greina neðansjávargíga en lega hraunjaðarins á hafsbotni bendir til að þar hafi hraun flætt upp um sprungu án þess að um mikla sprengivirkni hafi verið að ræða. Flatarmál hraunsins á hafsbotni er um 3,4 km2. Hraun af þessu tagi, sem runnið hafa neðansjávar, er engan veginn einsdæmi við Ísland. Hópsnesið hjá Grindavík er hluti af hrauni sem runnið hefur niður að strönd og myndað allmikinn tanga út í sjó. Það er um 8000 ára gamalt. Á myndum má sjá að það teygir sig áfram neðansjávar og myndar hrauntungu sem nær niður á um 100 m dýpi. Á hafsbotnskortum ÍSOR af Reykjaneshrygg og Kolbeinseyjarhrygg eru sýnd hraun sem runnið hafa á sjávarbotni frá gígum og gossprungum á allmiklu dýpi. 

Talið er að þetta séu svokölluð bólstrabergshraun eða bólstrabreiður. Til þess að hraun geti runnið með þessum hætti þurfa þau að verja sig gegn sjávarkælingu. Þau virðast mynda einangrandi kápu úr gjalli og storknuðu bergi um leið og þau streyma fram. Ljóst er að hraunrennslið þarf að vera mikið og stöðugt til að hrauntunga nái að myndast og flæða fram á sjávarbotni. Við slíkar aðstæður myndi vera illgerlegt að stöðva hraunrennsli með sjókælingu. Bent er á frekari fróðleik um jarðfræðina og sögulegt yfirlit um hraunin á Reykjanessskaga á vef ÍSOR og í jarðfræðikortavefsjá ÍSOR.

Texti fenginn af vef ÍSOR.

401857835_915056977080115_7775330210994949888_n399653017_915057000413446_601372464890411981_n400052398_915056947080118_37331505755351473_n