Varðskipið dældi vatni í Flatey

Þá var slasaður maður fluttur úr eynni í Stykkishólm

Varðskipið Þór var um helgina við störf í Flatey á Breiðafirði en heimamenn höfðu haft samband við Landhelgisgæsluna vegna yfirvofandi vatnsskorts í eynni. Áhöfn Þórs dældi þrjátíu tonnum af ferskvatni yfir í eyna. Dælingin gekk prýðilega en hún tók fimm klukkustundir og 35 mínútur. Að henni lokinni voru allir tankar í eynni orðnir fleytifullir.

Vatnsgeymar varðskipsins Þórs taka 297 rúmmetra og á laugardaginn voru 280 rúmmetrar í þeim. Flateyingar fengu því rétt rúmlega 1/10 af vatnsbirgðum skipsins. 

Um það leyti sem Þór var að athafna sig við Flatey barst ábending um að maður í eynni hefði slasast og þyrfti á aðhlynningu að halda. Sjúkraflutningamenn úr áhöfn skipsins fóru í land á léttbát til að athuga líðan mannsins. Skoðun þeirra leiddi í ljós að hann væri líklega rifbeinsbrotinn. Svo heppilega vildi til að þyrlan TF-SYN var í gæsluflugi í grenndinni og var því ákveðið að hún sækti þann slasaða og kæmi honum til læknis. Þyrlan lenti í Flatey um kaffileytið í gær, nánar tiltekið klukkan 14:53. Um hálftíma síðar lenti svo TF-SYN á flugvellinum í Stykkishólmi. Þar beið sjúkrabíll sem flutti manninn á heilbrigðisstofnunina í bænum.