Varðskipið í sorphreinsun í Aðalvík

Varðskipið Þór sigldi með vaska sjálfboðaliða og flutti rusl frá Aðalvík

Áhöfn varðskipsins Þórs tók þátt í sérstaklega skemmtilegu verkefni í friðlandinu á Hornströndum um helgina. Vaskur hópur sjálfboðaliða hreinsaði rusl í Aðalvík og var varðskipið notað til að ferja fólk á svæðið og flytja ruslið úr friðlandinu. 


Mynd: Haukur Sigurðsson.

Upphaflega stóð til að hirða rusl í Bolungarvík á Ströndum en vegna óhagstæðrar veðurspár var ákveðið að fara í Aðalvík í staðinn. Varðskipið lagði úr höfn snemma á laugardagsmorguninn með 31 farþega. Léttbátur Þórs var svo notaður til að ferja sjálfboðaliðina í land. Þeir hirtu rusl á Látrum, í Miðvík og á Sæbóli, aðallega plastrusl og netadræsur en líka dekk og kapla og annan úrgang sem á alls ekki heima í þeirri fallegu náttúru sem Hornstrandafriðlandið býður upp á.


Mynd: Haukur Sigurðsson.

Óhætt er að segja að mannskapurinn hafi tekið hressilega til hendinni. Þegar yfir lauk höfðu þrjátíu saltpokar og kör verið fyllt af alls kyns rusli. Áður en haldið var aftur til Ísafjarðar um kvöldið var slegið upp grillveislu fyrir hópinn svo enginn færi nú svangur heim eftir erfiði dagsins. Varðskipið lagði svo að bryggju á Ísafirði með þéttpakkaða ruslapoka og pakksadda sjálfboðaliða á ellefta tímanum á laugardagskvöldið. 

Sigurður Steinar Ketilsson skipherra var ánægður með dagsverkið. Mynd: Haukur Sigurðsson.

Þetta er fjórða sumarið í röð sem efnt er til slíkrar sorphreinsunar á Hornströndum. Landhelgisgæslan er afar stolt að fá að vera með og leggja þannig sitt af mörkum við að halda ströndum landsins hreinum. Auk Landhelgisgæslunnar styðja Ísafjarðarbær, Vesturferðir, Umhverfisstofnun, Borea Adventures, Vesturverk, Aurora Arktika, Sjóferðir Hafsteins og Kiddýjar, Skeljungur og Gámaþjónusta Vestfjarða við þetta frábæra verkefni. 


Mynd: Haukur Sigurðsson.