Varðskipið Þór flutti mannskap og vistir vegna snjóflóða

Varðskipið Þór flutti viðbragðsaðili til Flateyrar vegna snjóflóða.

  • IMG_0701

15.1.2020 Kl: 13:33

Áhöfnin á varðskipinu Þór var kölluð út á miðnætti vegna þriggja snjóflóða sem féllu á Flateyri og í Súgandafirði. Varðskipið var þá statt á Ísafirði. Í síðustu viku ákvað Landhelgisgæslan að sigla skipinu vestur á firði vegna slæmrar veðurspár svo hægt væri að hafa skipið til taks ef á þyrfti að halda. Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra óskaði eftir því að varðskipið flytti björgunarsveitarmenn, lögreglumenn, lækni og aðra viðbragðsaðila til Flateyrar. 


Þá var þyrlusveit Landhelgisgæslunnar kölluð út til að vera í viðbragðsstöðu á Reykjavíkurflugvelli. Varðskipið Þór lagði af stað frá Ísafirði klukkan 00:40 og var komið á Flateyri á þriðja tímanum í nótt. Léttbátar varðskipsins voru notaðir til að koma viðbragðsaðilunum í land.


Stúlka sem lenti í snjóflóðinu var flutt með varðskipinu til Ísafjarðar laust fyrir klukkan fjögur í nótt ásamt lækni, hjúkrunarfræðingi og aðstandendum. 


Varðskipið hélt svo aftur á Flateyri með mannskap og vistir frá Ísafirði um klukkan níu með viðkomu í Bolungarvík þar sem tveir til viðbótar komu um borð. Áfallahjálparteymi frá Rauða krossinum var með í för auk annarra farþega sem voru fluttir með léttbátum í land. Þór verður áfram til taks á Vestfjörðum ef á þarf að halda.


Þá var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út í sjúkraflutning á þriðja tímanum. Einn verður fluttur frá Flateyri og komið undir læknishendur á Ísafirði og annar verður fluttur frá Ísafirði á sjúkrahús í Reykjavík.

Flateyri

83031235_2567118340275670_6106839360517177344_nVarðskipið Þór við bryggju. Mynd: Sigríður Sigþórsdóttir.

Flateyri3Léttbátur varðskipsins var notaður til að flytja fólk og vistir frá varðskipinu til lands.04Vistir fluttar um borð í varðskipið.Flateyri1Frá aðgerðum næturinnar.IMG_0699_1579095958232Frá Flateyri í morgun.