Varðskipið Þór fylgdi skútu í vanda til hafnar og æft með Triton

Margvísleg verkefni áhafnarinnar á Þór.

  • Skuta1_1590408539956

25.5.2020 Kl: 12:08

Verkefni áhafnarinnar á varðskipinu Þór hafa verið margvísleg undanfarna daga. Í gærmorgun hafði skipstjóri seglskútu samband við áhöfn varðskipsins en hann átti í vandræðum með að sigla inn til Reykjavíkur vegna slæms veðurs og óskaði eftir fylgd síðasta spölinn. Varðskipið Þór var í grenndinni og kom að seglskútunni skömmu síðar. Þar voru þrír um borð og voru stög í mastri skemmd sem og seglabúnaður eftir veðrið í gærmorgun. Vindhraði fór yfir 40 hnúta á svæðinu á tímabili.

Þór lónaði fram fyrir skútuna og var skipstjóri hennar beðinn um að halda sig í skjóli rétt aftan við varðskipið og fylgja því eftir. Fylgdinni lauk eftir rúmlega klukkustundar siglingu skammt suður af Engey. Þá hélt skútan til hafnar og skipstjórinn þakkaði kærlega fyrir aðstoðina.

Þá héldu áhafnir varðskipsins Þórs og danska varðskipsins Triton sameiginlega æfingu í utanverðum Faxaflóa á dögunum þar sem hvort varðskip var tekið í tog af hinu. Áhafnir dönsku og íslensku varðskipanna æfa reglulega saman við Íslandsstrendur enda mikilvægt að viðhalda góðu samstarfi.  

Skuta2Seglskútunni fylgt til hafnar.Triton_1590408573292Þór með Triton í togi.