Varðskipið Þór komið með Hoffell til Reykjavíkur

Varðskipið Þór er nú komið til Reykjavíkur með flutningaskipið Hoffell sem varð aflvana síðastliðinn sunnudag um 160 sjómílur suðvestur af Færeyjum.

Er beiðni barst til Landhelgisgæslunnar um aðstoð varðskips var Þór staddur úti fyrir Breiðafirði og hélt hann þá þegar af stað.  Það tók varðskipið rúmar 40 klukkustundir að sigla á vettvang. Var Þór kominn að Hoffellinu fyrir hádegi síðastliðinn þriðjudag og tók það áhöfnina á Þór aðeins tæpa tvo tíma að koma taug á milli skipanna þrátt fyrir töluverða ölduhæð. Þór hélt svo áætlun til Reykjavíkur og kom með Hoffell að hafnarmörkum Reykjavíkurhafnar norðvestan við Engey rétt rúmlega 14:00 í dag og klukkan 15.00 var varðskipið búið að taka inn dráttarbúnað sinn. Þá tóku dráttarbátar Reykjavíkurhafnar við og drógu skipið að bryggju.

Ferð Þórs frá því að beiðnin barst og þar til komið var að hafnarmörkum Reykjavíkurhafnar nú í dag er alls 940 sjómílur og tók 111 klukkustundir. Þetta er lengsta ferð Þórs með skip í drætti og annað slíkt verkefni skipsins í þessari ferð en fyrr í ferðinni dró varðskipið togskipið Fróða II ÁR-32. Varðskipið Þór er fyrir löngu búið að sýna fram á mikilvægi þess að Íslendingar eigi öflugt varðskip með mikla dráttargetu en fiskiskip, flutningaskip og farþegaskip sem reglulega eru í siglingum við og umhverfis Ísland hafa stækkað undanfarna áratugi.

Aðgerðir gengu í alla staði mjög vel og hefur áhöfnin á Þór góða reynslu og þekkingu á verkefnum sem þessum. Að loknum aðgerðum í dag hélt varðskipið áfram til eftirlits- og löggæslustarfa.

Hér má sjá myndir frá vettvangi í dag sem Daníel Hjaltason flugvirki tók.