Varðskipið Þór lagðist að bryggju í Grindavík í fyrsta sinn
- Mikilvægur undirbúningur ef nýta þarf varðskipið Þór sem hreyfanlega rafstöð.
10.2.2020 Kl: 11:39
Varðskipið Þór lagðist að bryggju við Miðgarð í Grindavík í fyrsta sinn laust fyrir klukkan ellefu í morgun. Um eins konar æfingu er að ræða en tilgangurinn er fyrst og fremst að undirbúa landtengingu skipsins við spennustöð og dreifikerfi HS Veitna sem staðsett er við Miðgarð. Jafnframt er afar gott fyrir skipstjórnarmenn varðskipsins að máta sig í innsiglingunni og höfninni sjálfri.
Þessi æfing Landhelgisgæslunnar, HS Veitna og Grindavíkurhafnar er mikilvæg ef nýta þarf varðskipið Þór sem hreyfanlega aflstöð eins og gert var á Dalvík í óveðrinu í desember.
Við hönnun Þórs var horft til þess að mögulegt yrði að senda rafmagn í land vegna rafmagnsleysis. Skipið getur flutt 2 megavött sem er nóg til þess að halda meðalstóru sveitarfélagi gangandi í neyðartilvikum.
Páll Geirdal, skipherra á varðskipinu Þór, segir siglinguna hafa gengið vel en þetta er í fyrsta sinn sem varðskip kemur til hafnar í Grindavík.
Sjómælinga og siglingaöryggisdeild Landhelgisgæslunnar vinnur nú að gerð nýs hafnarkorts fyrir innsiglinguna og höfnina í Grindavík.
Meðfylgjandi myndir tók Guðmundur Birkir Agnarsson.
Varðskipið Þór kemur til Grindavíkur í morgun. Mynd: Guðmundur Birkir Agnarsson.
Varðskipið Þór.
Varðskipið lagðist að bryggju laust fyrir klukkan ellefu í morgun.
Hér má sjá nýjustu dýptarupplýsingar frá Grindavík en Vegagerðin annaðist mælingar. Við Miðgarð í Grindavík er búið að dýpka niður í um 8 metra dýpi. Dýpi í hafnarmynninu og hluta hafnarinnar er þó enn um og undir 7 metrum (6,5 til um og yfir 7 metrar).
Sjöundi bekkur í Grunnskóla Grindavíkur var boðið um borð í skoðunarferð. Páll Geirdal, skipherra, og Hálfdán Freyr Örnólfsson, stýrimaður, eru hér með þeim á myndinni.
Varðskipið Þór.