Varðskipið Týr aðstoðar við fjarskipti vegna leitar að rjúpnaskyttum

  • TYR_Akureyri44

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst seint í gærkvöldi, laugardagskvöld beiðni frá lögreglu um aðstoð þyrlu vegna leitar að tveim rjúpnaskyttum á sunnanverðu Snæfellsnesi. Áhöfn TF-SYN, þyrlu Landhelgisgæslunnar fór í loftið rétt eftir miðnætti og tók með sér svokallaðan GSM-miðunarbúnað sem miðar út staðsetningu GSM-síma. Leitað var til rúmlega þrjú í nótt en án árangurs. Skyggni á svæðinu var mjög slæmt og skilyrði til leitar með þyrlu afar erfið.

Björgunarsveitir hafa leitað síðan í gærkvöldi en aðstæður á svæðinu eru erfiðar, skyggni slæmt og fjarskipti mjög erfið. Til að aðstoða við fjarskiptasamband á svæðinu hefur varðskipinu Tý verið beint á svæðið og er það væntanlegt suður undir Kirkjuhól um klukkan tvö í dag. Mun það verða til taks meðan þörf er á til að aðstoða við fjarskipti.