Varðskipið Týr fylgist með loðnuveiðum

Fjölmörg erlend loðnuskip komin til veiða

Koma erlendra loðnuveiðiskipa í íslensku fiskveiðilögsöguna árviss viðburður um þetta leyti árs, rétt eins og farfuglarnir að vori. Skipin eru nú þegar farin að láta á sér kræla á veiðisvæðinu. Um hádegisbilið í dag voru tíu norsk skip á miðunum og sjö til viðbótar í höfn austanlands. Þá eru tvö færeysk skip að veiðum. Grænlenska loðnuskipið Polar Amaroq er í höfn en það tók fyrir skemmstu þátt í mælingum á stærð loðnustofnsins með rannsóknaskipunum Árna Friðrikssyni og Bjarna Sæmundssyni.

Veiðarnar virðast ganga ágætlega. Eitt af norsku skipunum tilkynnti í dag um 470 tonna afla og annað færeysku skipanna hefur veitt 220 tonn.

Landhelgisgæslan fylgist að venju grannt með veiðum erlendu skipanna. Í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hefur verið nóg að gera við að sinna alls kyns umsýslu vegna skipanna, meðal annars að taka á móti þeim tilkynningum og leyfum sem þau þurfa að standa skil á og sjá til þess að það sé rétt og stundvíslega gert. 

Þá er varðskipið Týr á veiðisvæðinu til að sinna þar eftirliti. Varðskipsmenn fóru í vikunni um borð í eitt af norsku skipunum en það hafði fengið fyrirmæli um að halda til móts við Tý eins og reglugerð um veiðarnar gerir ráð fyrir að Landhelgisgæslan geti krafist. Athugun varðskipsmanna sýndi að aflinn um borð var í samræmi við tilkynnt aflamagn til stjórnstöðvar. 

Myndin er úr safni Landhelgisgæslunnar og hana tók Jón Páll Ásgeirsson yfirstýrimaður.