Varðskipið Týr í viðburðarríkri eftirlits- og löggæsluferð

Varðskipið Týr kom til hafnar fyrir skemmstu að lokinni vel heppnaðri og annasamri eftirlits- og löggæsluferð um miðin. Meðal annars sinnti áhöfnin á Tý sameiginlegu eftirliti með Fiskistofu og voru fulltrúar þaðan með í för í nokkra daga. Var svo eftirlitinu framhaldið alla ferðina og farið um borð í alls 49 skip. Voru 46 þeirra íslensk og þrjú færeysk. Mest var farið til eftirlits í handfærabáta á strandveiðum en einnig talsvert um borð í togara, línubáta og humarbáta auk þjónustuskips við fiskeldi.

Þegar farið er um borð til eftirlits kanna varðskipsmenn meðal annars réttinda- og öryggismál en fulltrúar Fiskistofu kanna afla. Gekk eftirlitið almennt vel og langflestir voru með allt sitt á hreinu.

Þá var í ferðinni þremur svæðum lokað með skyndilokunum vegna smáfisks í afla.

Í lok ferðar var farið til aðstoðar ástralskri seglskútu sem var í vandræðum djúpt vestur af landinu. Skútan lenti í óveðri og við það skekktist mastur hennar. Kom leki að skútunni og jókst hann þegar segl voru uppi. Þurfti skútan í framhaldinu að sigla fyrir eigin vélarafli en hafði ekki nægt eldsneyti til að ná til Reykjavíkur. Fór varðskipið á vettvang og lét skútuna fá nægt eldsneyti til að ná til hafnar en varðskipið hélt áfram för sinni. Stuttu síðar hafði skútan aftur samband og óskaði fylgdar varðskipsins til hafnar. Brugðust varðskipsmenn að sjálfsögðu skjótt við og fylgdi Týr skútunni síðasta spölinn til Reykjavíkur.

Varðskipið Þór er nú haldið af stað í eftirlits- og löggæsluferð og verður á ferðinni næstu vikurnar meðan hugað verður að reglubundnu viðhaldi á Tý.

Hér má sjá myndir frá viðburðarríkri ferð varðskipsins Týs sem varðskipsmenn tóku.

 
Hér má sjá Eirík Bragason stýrimann á Tý (til vinstri) fylgjast með um borð í humarbáti.
 
Eiríkur stýrimaður (til hægri) mælir með kampakátann skipverja sér við hlið enda þessi humarbátur með allt sitt á hreinu.
 
Hér má sjá áströlsku skútuna sem skipverjar á Tý komu til aðstoðar. Fluttu varðskipsmenn eldsneyti yfir til skútunnar á léttabát varðskipsins.