Varðskipið Týr kallað út til að auka viðbragðsgetu á hafinu
Skipið verður til taks við suðvesturhluta landsins
26.11.2020 Kl: 15:15
Varðskipið Týr lætur úr höfn í Reykjavík um kvöldmatarleytið en áhöfn skipsins var kölluð út í morgun til að auka viðbragðsgetu Landhelgisgæslunnar á hafinu þar sem engin björgunarþyrla eða flugvél er tiltæk vegna verkfalls flugvirkja. Varðskipið Þór er við eftirlit norður af landinu og til stendur að Týr sigli til Vestmannaeyja og verði til taks á suðvestanverðum Íslandsmiðum.
Um miðjan dag voru rúmlega 200 skip og bátar í kerfum stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar, þar af 89 íslensk. Afar brýnt þykir að auka viðbragðið á sjó vegna þeirrar stöðu sem uppi er og því verða tvö varðskip, Þór og Týr, til taks ef á þarf að halda næstu daga. Þá er séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar sömuleiðis í viðbragðsstöðu auk þess sem varnarmálasvið Landhelgisgæslunnar mun tryggja yfirsýn yfir staðsetningu allra erlendra ríkisfara við Ísland, bæði skipa og flugvéla, sem hugsanlegt væri að nýta við leit og björgun ef á þyrfti að halda.
Um borð í hvoru varðskipi er 18 manna áhöfn sem er sérþjálfuð til björgunarstarfa. Gert er ráð fyrir að varðskipið Týr verði til taks á meðan skert viðbragð er úr lofti.