Vel gekk að dæla sjó úr Gretti sterka

Þyrlusveit, sjóbjörgunarsveitir Landsbjargar voru kallaðar út ásamt áhöfninni á Lóðsinum frá Vestmannaeyjum.

  • Image00009_1715002931273

6.5.2024 Kl: 13:30

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og sjóbjörgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út vegna dráttarbátsins Grettis sterka sem lenti í vanda vegna bilunar, suðaustur af Vík, á tíunda tímanum á föstudagskvöld kvöld. Fimm voru um borð í dráttarbátnum.

Áhöfn Grettis hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í kjölfar þess að báturinn tók inn á sig sjó vegna bilunar. TF-GRO, þyrla Landhelgisgæslunnar, og björgunarskipið Þór, frá Vestmannaeyjum, héldu til móts við dráttarbátinn sem tók stefnuna til Eyja þegar bilunarinnar varð vart. Þá var dráttarbáturinn Lóðsinn frá Vestmannaeyjum einnig beðinn um að halda á vettvang. Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var komin að dráttarbátnum um klukkan 23:30 og fóru tveir sigmenn þyrlunnar um borð í dráttarbátinn með sjódælur og hófu að dæla sjó úr bátnum. Sigmennirnir urðu eftir í dráttarbátnum meðan þyrlan hélt til Vestmannaeyja til að taka eldsneyti. Skömmu síðar kom björgunarskipið Þór frá Vestmannaeyjum  á vettvang um klukkan 00:30 og flutti fleiri dælur um borð og aðstoðaði við útdælingu.

Vel gekk að dæla sjó úr Gretti sem var kominn til hafnar í Vestmannaeyjum undir morgun í fylgd Lóðsins.

Image00006_1715002931808Vel gekk að dæla sjó úr Gretti sterka.

Image00002_1715002931712Björgunarskipið Þór frá Vestmannaeyjum.

Image00008_1715002931547Þyrlusveit og áhöfnin á Þór kom með dælur um borð í Gretti.

Image00003_1715002931581Frá aðgerð næturinnar.