Vel heppnuð Northern Challenge-æfing

Northern Challenge 2017 lauk undir lok nýliðinnar viku og þóttist æfingin heppnast vonum framar

Northern Challenge 2017, alþjóðlegri æfingu sprengjusérfræðinga sem fram fór hér á landi, lauk undir lok nýliðinni viku. Er það mál þeirra sem að æfingunni komu að hún hefði heppnast einstaklega vel en aldrei hafa svo margir tekið þátt í henni.

Þetta er í sextánda skipti sem Northern Challenge er haldin og stendur æfingin yfir í hálfan mánuð. Að þessu sinni taka þátt 33 lið frá 15 ríkjum og heildarfjöldi þátttakenda er um 300. Æfingin er haldin á starfssvæði Landhelgisgæslunnar á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, gamla varnarliðsvæðinu og hafnarsvæðum í nágrenninu.


Gestir á kynningardegi Northern Challenge 2017 létu rok og rigningu ekki á sig fá. 


Sprengja í sjó gerð óvirk með sprengiefni. 

Óhætt er að segja að þátttakendurnir hafi haft í nógu að snúast því hvorki fleiri né færri en 566 sprengjur voru búnar til sem liðin áttu að sjá um að gera óvirkar. Alls voru verkefnin á landi 315 talsins og um eitt hundrað á sjó. Eins og búast má við á þessum árstíma var veðrið með ýmsu móti, allt frá yndislegri haustblíðu til alíslensks slagveðurs. Þátttakendurnir voru raunar flestir á því veðrið mætti ekki vera of gott því þá væru verkefnin ekki eins krefjandi. Rokið og rigningin voru því kærkomin en yfirleitt er nóg af hvoru tveggja á æfingasvæðinu.


Georg Kr. Lárusson, forstjóri LHG, býður gesti á kynningardeginum velkomna.

Fjölmiðlar fylgdust grannt með æfingunni meðan á henni stóð og komu meðal annars Morgunblaðið og Stöð 2 í heimsókn. Föstudaginn 6. október var svo fjölmörgum gestum, bæði innlendum og erlendum, boðið að sjá Northern Challenge 2017 með eigin augum á sérstökum kynningardegi. Dagskráin hófst með kynningu á æfingunni, svo fengu gestirnir að heimsækja stjórnstöðina og sprengjuverkstæðið. Að því búnu fór hópurinn í Helguvík þar sem sprengjusérfræðingar gerðu sprengjubúnað óvirkan, annars vegar á landi og hins vegar í sjó. Að loknum hádegisverði héldu svo gestirnir í flugskýli Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli þar sem sprengjuteymin höfðu stillt upp útbúnaði sínum. Þar úði og grúði af græjum, til dæmis sprengjuróbótum, brynvörðum bifreiðum og hlífðarbúnaði af ýmsu tagi. 


Liðin á æfingunni sýna útbúnaðinn í flugskýli LHG á Keflavíkurflugvelli


Þrír af fulltrúum LHG, þeir Baldur Ragnars Guðjónsson, Jón Marvin Pálsson og Ásgeir Guðjónsson. 


Sprengjueyðingarbúnaður af öllum stærðum og gerðum var til sýnis. 

Æfingin, sem er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum, er í umsjón séraðgerða- og sprengjueyðingarsviðs Landhelgisgæslunnar, sem einnig annast skipulagningu hennar og stjórnun. Fjölmargir aðrir starfsmenn Landhelgisgæslunnar koma að æfingunni auk þess sem varðskip, þyrla, sjómælingabátur og stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar taka þátt. Atlantshafsbandalagið styrkir verkefnið.

Tilgangur Northern Challenge er að æfa viðbrögð við hryðjuverkatilfellum þar sem heimatilbúnar sprengjur koma við sögu. Samskonar búnaður og fundist hefur víðsvegar um heiminn síðastliðin ár er útbúinn og aðstæður í kring hafðar eins raunverulegar og hægt er.