Vélarvana bátur nærri Rifi
Bátar á svæðinu og björgunarsveitin Lífsbjörg brugðust hratt við
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst laust fyrir klukkan átta í morgun beiðni um aðstoð frá fiskibátnum Kára SH-78. Hann var þá vélarvana um tvær sjómílur vestan við höfnina á Rifi, tæpa hálfa sjómílu frá landi. Tveir voru um borð í bátnum.
Aðeins mínútu eftir að beiðnin um aðstoðina barst hafði Sverrir SH-126 samband við stjórnstöð. Hann var þá um fjórar sjómílur frá Kára og áætlaði að vera hjá honum skömmu síðar. Miðað við rek Kára leit út fyrir að hann ræki upp í fjöru við Gufuskála á fimmtán mínútum. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út, svo og Lífsbjörg, björgunarsveit Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Snæfellsbæ.
Klukkan 8:12 hafði skipstjórinn á Sverri samband við stjórnstöð, hann var þá kominn með Kára í tog og dró hann frá landi. Sæbjörg II, harðbotna slöngubátur björgunarsveitarinnar Lífsbjargar, kom skömmu síðar og tók við drættinum en það var svo björgunarskipið Björg sem dró Kára síðasta spottann að Rifi. Þegar ljóst var að allri hættu hafði verið bægt frá var aðstoð þyrlunnar afturkölluð. Laust fyrir klukkan hálftíu var Björg komin með Kára að bryggju.
Þröstur Albertsson, félagi í Slysavarnafélaginu Landsbjörg, tók myndina sem fylgir þessari frétt.